top of page

Musteri Sálarinnar

Verkið er óður til andans og er afrakstur ævilangrar rannsóknar minnar. Skúlptúrinn býður gesti uppá þá ögrun að líta í eigin barm í einveru, inni í verkinu. Blíðubrosið er vegvísir inn í zenið eða sálina, sem gefur okkur eilífa tengingu við upphafið; alheimsandann, guð eins og fram kemur í úrvalsljóðinu Lífshvöt eftir Steingrím Thorsteinsson Trúðu´á tvennt í heimi, tign sem æðsta ber, guð í alheims geimi, guð í sjálfum þér. Sálin sækir í að sameina og heila.  Sálin hvílir að baki allri hugsun, í stóískri ró. Þar á sköpunin sér stað. Þar finnum við tengingu við frelsið, friðinn, værðina, einlægnina, okkar eiginlegu veru, hið eina sanna. 

Sjálfið eða Ég-ið hefur hins vegar með metnaðinn okkar að gera og er tímatengt í rauntíma. Sjálfið sér um eigin samanburð; matið á sér miðað við aðra td. kollegana. Sjálfið sækir í að aðskilja og deila. Sjálflægnin og sjálfsupphafningin er stunduð af mismiklu kappi, eins og fram kemur í hinni ævafornu sögu um Babelsturninn. Jantelögmálið: „ Þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað“ og „Þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað meira eða betra en við “ eru enn við lýði. Tilfinningahiti og tilfinningaflækjur hvers konar gera hæglega vart við sig og sársaukinn er yfirfærður fljótt og örugglega í ofhugsun, sjálfsásökun og þráhyggju.

Verkið er tileinkað elskulegu einhverfu nöfnu minni, sem ég vil þakka; Ingunni Magnúsdóttur, sem er þróaðri en við, því hún er stökkbreytt. Við getum lært mikið af henni um það að dvelja í núinu, þar sem hún heldur til alla tíð og tíma. Blíðubrosið er raunverulega hennar.

Stærð: H 5.13m X L 1.50m X B 1.50m

Efni: Blönduð tækni; málaradúkur, tré, kopar, stál og aðrir málmar, ljós o. fl.     

bottom of page