Gegnsæi – til hvers?
Er eitthvert gagn af rýni? Sjáum við í gegnum þetta? -eða sjáum við einfaldlega í gegnum fingur með þetta allt saman? Kynnt er meðal annars bókverkið Til hennar þar sem ljóðskáldið Jónas Friðrik og Yst leiða saman verk sín með menningarstyrk frá Norðurþingi og Eyþingi.
Yst
Bókverkið Til hennar (100 tölusett eintök) er samstarfsverkefni myndlistakonunnar Ystar í Bragganum í Öxarfirði og skáldsins Jónasar Friðriks á Raufarhöfn. Ásprent á Akureyri annaðist raungerðina. Hugmyndina á Yst sem stjórnaði öllu ferlinu frá upphafi til enda. Hugmyndin að bókverkinu er tvíþætt, annars vegar að tjá mismunandi sýn okkar listamannanna á konuna frá vöggu til grafar. Hins vegar að athuga hvort samlegðaráhrifin magna útkomuna, eftir að hafa unnið verkin sem birtast í bókverkinu hlið við hlið algjörlega án samráðs. Loks að athuga hvort sjálft gegnsæið í efni bókverksins, sem kallað er eftir í samfélaginu gefur okkur fleiri vinkla og margþættari, til að meta hin ýmsu verk út frá!
Ávinningurinn af samstarfsverkefninu er ótvíræður, því hlutverk listamanna er að varpa ljósi á það, sem skiptir máli, tala máli sannleikans hvert á sinn hátt, vera hreinskiptin og einlæg í framsetningu, -sönn. Gildi menningar og þar með talið listanna felst í að finna hvað sameinar okkur, sem NorðAustur-hyrninga, sem Íslendinga, sem manneskjur, að finna mennskuna í okkur og koma henni á framfæri við meðbræður okkar og systur til ýmist samhljóms og/eða móthróps!
Yst