top of page

Dansinn Yst

Hvað er list? Getur verið að í listinni birtist sannleikurinn betur en í lífinu sjálfu?

Vigdís Finnbogadóttir sagði eitt sinn - þar sem engin list fyrirfinnstþar ríkir fátækt. Verkið Dans er abstraktverk og sjá má ýmislegt út úr því:  Kannski skip með segli etv. þjóðarskútuna sem dansar á öldunum. Eða er þetta kannski danspar þar sem karlinn sveigir sig að mitti dömunnar sem stígur fram í villtum dansi eða bara hvoru tveggja par og skúta! Kannski þetta séu einfaldlega form og litir sem stíga dans í birtuspili ljóss og skugga. Ég læt öðrum eftir að túlka verkið. Mér finnst gaman að skapa verk sem hafa léttleika fólginn í sér og hreyfingu innbyggða í verkið og birtan er mér mjög mikilvæg. Einföld form og hlutföll einkenna mína listsköpun og sammannleg nálgun er sálfræðingnum í mér eðlislæg.

Verkið Dans er tileinkað tveimur mikilhæfum Sléttungum; Járnsmiðnum og uppfinningamanninum Kristni Kristjánssyni frá Nýhöfn sem vann hugmyndir sínar í harðan málminn og skáldinu Jóni Trausta, sem smíðaði ljóð sín og sögur úr orðum. Þeir áttu það sammerkt að vilja létta mönnum lífið hvor á sinn hátt. Kristinn fann upp línurennuna, sem ekki einungis létti línusjómönnum störfin heldur bjargaði beinlínis mannslífum. Ljóð Jóns Trausta og sögur voru upplífgandi og gáfu von á erfiðum tímum: Draumalandið, Ég vil elska mitt land og uppáhaldið mitt „Vel er mætt til vinafundar“ eru landsþekktir sígildir lagatextar eftir hann.

Ef verkið getur haft góð áhrif út frá sér, með hvatningu til okkar sem um veginn rata  að gera enn betur í samfélaginu, þá er vel.

Ef verkið getur hvatt til samstöðu um að draga úr misrétti og að breyta samfélags-strúktúrnum sannleikanum og lífinu í vil – ja - þá er vel að verki staðið!

Yst

12 Vel er mættYST
00:00 / 01:38
bottom of page